Ekki er allleiðinlegt að syngja komandi kvæði við lag Litlu flugunnar (Lækur tifar…)

Hér orðin eru bundin þétt í bögu
þótt bærilegra sé að tala um ljóð.
Nú ætla ég að segja stutta sögu
af sómamanni nokkrum - hafið hljóð!

Hann er ekki öðrum mönnum líkur,
og ofurlítið þver og sérvitur.
En hann er alveg ofboðslega ríkur;
á örugglega meira en Björgólfur.

Hann á marga milljarða af krónum
og margar á hann einkaþoturnar.
Og Hondúras og helminginn af sjónum
og heimskautin og mörgæsirnar þar.

Og Skógarfoss og skrilljón boltapumpur
og skyndibitastaði 57.
Og konungshöll í Kualala Lumpur
og kínverja frá 2002.

Og heimsálfur á Satúrnus og Neptún.
og nætúrklúbb í Los Angeles-borg.
og bílasölu og kardemommukauptún
og hvítabjörn og himneskt friðartorg.

Og úðabrúsa og táragas og trégas
og tundurdufl og jólasveinahatt.
Og eiginhandaráritun frá Megas
og engan borgar hann af þessu skatt.

Hann á dýragarð og geimflaug líka
og gulllitaðan limmósínu-Benz.
Flestir karlmenn kall'ann Jenna ríka
en konur tala æ um Ríka-Jens.

Reyndar á hann ekki neina vini
né eiginkonu trygga, nema hvað,
né kærleik neinn og hvorki snót né syni.
En hverjum er ekki alveg sama um það?