Hann sendur var að sækja brauð
og sitthvað fleira í tómlegt búið.
Því fjölskyldan var fátæk, snauð,
fólkið orðið svangt og lúið.
Af stað hann fór og ei varð aftur snúið.

Strákurinn gekk en stormur hvein.
Hann staulaðist uns brustu fætur.
Napur vindur nísti bein,
næðingur óx við fjallsins rætur.
Svona liðu nokkrar langar nætur.

Í eymd hann lá og björgunar beið
með brotinn fót og kalna fingur.
Undan frosti sárt hann sveið,
seytlaði um æðar kuldastingur.
Drengur sá var sannur Íslendingur.

Hann fann hve lífið fjaraði út.
Farin heitust andarþráin.
Hug hans fylltu sorg og sút,
hann sá hann yrði bráðum dáinn.
Sá í fjarska hinn fræga mann með ljáinn.

Hans leituðu menn um víðan völl,
vongóðir um að finna drenginn.
Hann heyrði í fjarska hróp og köll
og hjartað snerti vonarstrenginn.
Í mót hann æpti. Máttur hans var enginn.

Mennirnir gengu í aðra átt,
eymdin fyllti drengsins hjarta.
Hann fraus í hel um næstu nátt,
nisti dauðans mátti skarta.
Hann sveif í átt til ljóssins, ljúfa bjarta.