Ég sagði þér eitthvað um sannleikann minn
og sýndi þér hlið sem var björt
vafði þig örmum, kyssti á kinn
kveikti í nóttinni ört.

Ég fann þig í hjartanu fylla mig af
fallegum þrálátum draumum
sem kastaði ég út á hyldýpsta haf
haltrandi á fótunum aumum.

Ég þorði ekki að elska því alltaf ég var
einn innií líkama mínum
og sál mín ei vissi hvernig og hvar
kynnst gæti löngunum þínum.

Ég laug að þér vina og vanrækti þig
og velti þér nóttina í.
Lét okkur hverfa mildina og mig
úr manni ég breyttist í ský.

Ég guggnaði á því eina sem gaf
við gátunni um lífið svar
og þegar ég hugsa til þín yfir haf
þá Hilda þú ert ekki þar.

Nú áttu barnið þitt blíða og það
sem best allt í heiminum gefst
og þarft ekki framar að skipta um stað
eða skipta á því sem er efst.

Ég bið þig að létt´af mér logandi synd
sem læsir mig tönnunum í
svo sjáumst við getum sem menn inní mynd
sem mætast um nótt sem er hlý.