Lítil snót með lokka gullna og bjarta
leitar hlýju í faðmi hins unga manns.
Með vonarbros, en brothætt, viðkvæmt hjarta
hún bíður eftir tilsögn sannleikans.

Því hún mátti áður þola svik frá sumum,
sem sögðust hana elska mundu og þrá,
en eyddu svo með eldingum og þrumum
allri ást sem farin var á stjá.

En ungar stúlkur þessi maður þekkti
og þóttist kunna að leika á hvaða frú.
Hann okkar ljúfu snót með brögðum blekkti
og besta vann með svikum hennar trú.

Hann sór að ávallt yrði hann til staðar,
svo öllum stundum gæti hún sofið rótt.
Á öðrum degi desembermánaðar
dvaldi hann hjá henni yfir nótt.

En eftir á var annað í honum hljóðið.
Hann hló og fagurt andlit hans varð ljótt.
En stúlkan grét og fann hve funheitt blóðið
flæddi í hennar vanga ofurhljótt.

Á axlir hennar hönd sína hann lagði.
Um hjarta hennar læddist kaldur þeyr.
Með bros á vör og válegt glott hann sagði:
“Nú vil ég ekkert með þig hafa meir.”

Og litla stúlkan lét sem ekkert væri,
þótt læddust niður vanga hennar tár.
Um sorgina engin liggja landamæri.
Læknar tíminn í alvöru öll sár?