Ég lærði snemma að brosa
af því að brosið er svo falleg
Það gefur til kynna góðvild
og hamingju gagnvart lífinu

Kannski er gleðin of mikil
Kannski finnst þér ég fara of nálægt
En ef ég hefði ekki brosið
þá myndi ég spúa eldi

Ég þrái gráa svæðið
Hinn gullna meðalveg
Það eina sem ég hef er brosið
til að bæla niður óttann

Inni í mér brennur hatur
Ég veit ekki hvaðan það kemur
Ég veit að hverju það beinist
en það étur mig upp að innan

Bræðin blossar uppi
Ég gnísti saman tönnum
Kreisti aftur augun
til að fela eldrautt augnaráðið
Kreppi saman hnefana
og stöðva suðið fyrir eyrunum

Ef þau sæu hvernig ég er
myndu öll herbergi tæmast
En enginn hrökklast undan
undurblíðu brosi

Mig langar að hugsa fallega
Ekki skemma það fyrir mér
Mig langar að vera eins og brosið
Af hverju er það ekki í lagi?

Þið málið veggina rauða
með orðunum sem þið segið
Rauð eins og ólgandi hatrið
sem inni í mér blundar og blossar
Ekki segja meira
Ég vil hafa veggina í kringum mig bláa

Ég mátaði svo mörg hlutverk
á nýafstöðnu ári
Ég man ekki hvar ég setti mig
en það gekk illa að vera ég

Mér þykir það mjög svo leiðinlegt
að ég rugli þér saman við einhvern
sem er ekki drullusama
og nennir í alvöru að hlusta

Mér er sama hvernig ég hljóma
og sama um það hvað þér finnst
Ef bara þú myndir skilja
hvers vegna ég þarf að brosa

Ef það væri til bæklingur
með ófrávíkjanlegum réttum svörum
þá myndi ég lesa hann upp til agna
og reyna að gera allt rétt

Segðu mér hvað ég á að gera
Ég er stödd í almennri uppgjöf
Ég hata að vera sagt fyrir verkum
en nú veit ég ekki hvað ég get gert

Mig langar að gera betur
Mig langar að gera mitt besta
Ég er uppiskroppa með blíðu
og ég kann ekki að bíta frá mér

Næst vil ég fá hlutverkið
þar sem mér líður eins og brosið
í leikritinu þar sem allir eru góðir
og koma fallega fram við hvern annan
Ekki af því að þeir ljúga
heldur af því að það er sjálfsagt að líða vel
og óska öðrum þess sama

Af hverju er það svona erfitt?
Af hverju er það ekki í lagi?