Ef þú gengur berfættur yfir frosna mýri desember dag einn,
sólin skín beint í augun,
frostlykt í loftinu
og það eru froststillur,
munt þú kannski taka eftir marglitum frostrósum.

Þú staldrar við eitt augnablik
og hugleiðir hvort jafn smágerð fegurð eigi rétt á sér.

Langt fyrir ofan þig,
einhvers staðar í blámanum, er flugvél.
Þú heyrir lágt vélarhljóðið.
Þú rýnir upp í himnana en án árangurs.
Sólin skín beint í augun.

Kalt vatn umlykur fætur þína.
Þú skarst þig þegar þú steigst í gegnum vökina.
Rauðir blóðtaumar mynda æðar í vatninu.
Undarleg andstæða við hvíta litinn í kring.

Það stirnir af marglitum frostrósunum.

Sólin skín beint í augun.
Hún er að síga í hafið.
Þú berð hönd fyrir þig og starir út yfir flóann.
Frostið bítur þig í kinnarnar,
eins og endalaus fjöldi mýflunga sem sveima í kringum höfuð þitt
en það er frost.

Þú lygnir aftur augum
og lætur þig falla.