Gakk með mér
um skóglendi
fylgjum troðnum stíg
inn í þykknið

Trén skarta miklu laufskrúði
nýfallið regn perlast

mjúkur jarðvegurinn
undir fótum okkar
gegnum laufþykknið
ná sólargeislarnir ekki

Loftið er rakt og þungt
rotnandi laufblöð
flugur á sveimi
köngulær leggja fyrir þær net sín

í rjóðri einu
rífa úlfar í sig hind
hjörturinn flúði

í ljósaskiptunum
öðlast tennur þeirra og augu
undarlegt endurblik
gult og rautt

leiddu mig
eftir stígnum heim