Undanfarið hef ég gert það af gamni mínu að fylgjast með ljóðaskrifum hér á netinu. Margt sem hér er birt er með þó nokkrum ágætum en margt er miður, svona eins og gerist og gengur myndi maður ætla. Það sem stingur mig þó í augum er hve lítið netskáldin virðast þekkja til ljóðlistarinnar. ‘Eg veit ekki hvort það sé rétt hjá mér en ég hef það mjög sterklega á tilfinningunni að margir hverjir lesi lítið sem ekkert af ljóðum eftir aðra en sjálfa sig. Jú, kannski renna skáldin augum yfir eitt og eitt ljóð hér á huga.is en þekkja þau önnur skáld? Vita þau hverjir helstu straumar hafa verið í ljóðagerð á 20.öld? Vita þau af hverju það þykir eðlilegt í dag að semja óhefðbundin ljóð, formlaus og án nokkurra hátta? Það er ekki nóg að semja bara eitthvað, sletta inn smá rími og kalla það svo ljóð. Við verðum að standa vörð um að þessi elsta grein bókmenntanna fari ekki út í eitthvað rugl. Sem dæmi má nefna að það eru mjög margir hér sem yrkja ljóð, mörg hver vel frambærileg, sem innihalda rím. Það er, bara því miður, óskráð regla í íslensku að slík ljóð innihaldi stuðla og höfuðstafi. Stuðlar og höfuðstafir eru eldri í íslenskum ljóðum en rímið, sem er komið í íslenskuna úr enskum bókmenntum, og það þykir einkar ófágaður kveðskapur rímuð kvæði og ljóð án stuðlasetningar.
Ljóð eru yndisleg. Þau örva hugmyndaflugið og geyma svo ríka tilfinningu, svo ríka að hvergi annars staðar sér maður nokkuð líkt. Látum hugann enn reika, færum orð og myndir hugans fram í penna og þaðan niður á blað. Enn leyfum okkur líka að upplifa önnur ljóð. Það er hluti af ánægjunni. Tökum fram ,,Fljótið helga“ eftir Tómas Guðmundsson, leyfum ,,Sorg” Jóhanns Jónssonar og ,,Sorg" Jóhanns Sigurjónssonar að ná tökum á okkur, förum á flug með Gyrði Elíassyni. Við skulum ekki loka ljóð okkar inni í staðbundnum heimi okkar eigin upplifunnar, látum frekar ljóð okkar leita út á við, ljóð snerta ljóð, tilfinning mætir tilfinningu.
’Eg vona að þið skiljið mig, ég er ekki með neinn reiðilestur né er ég að predika. Hverjum er frjálst að skrifa eins og þeim sýnist. En erum við ekki alltaf að reyna að gera betur en kynslóðin á undan?