Þetta ljóð kom nú rétt í þessu út úr mér í einni rommsu, ég ætla ekki að laga það til, því hentar best að vera svona, hrátt, ósnyrt og einlægt.



Veröld bjagast heimur sortnar
tárin flæða

gráttu barn
tárum fyrir reiðina
tárum fyrir angistina
tárum fyrir vonleysið.

tár sem hreinsa
tár sem hugga
tár sem tjá tilfinningar þínar
þegar þú getur það ekki sjálfur

gráttu barn
því heimurinn er vondur
og aldrei réttlátur
eða örlátur

gráttu barn
yfir horfnum ástvinum þínum
bilið er lengra en þú heldur
að sálum þeirra.

gráttu barn
því vegur þinn er svo langur
og gangan sár
og endinn hvergi að sjá.

gráttu barn því þú ert eitt
í þessum dimma skógi
sem heimurinn er
og þyrnóttar greinar slá til þín
úr öllum áttum
vindurinn næðir kaldur um þig
og rífur í föt þín

gráttu barn
því tárin hreinsa
hvítþvo sár þín
og sál þína
bægir burt myrkrinu
og kuldanum
í huga þér

gráttu barn
af gleði
því þú ert ung sál
með vegin framundan
sem nú er orðinn beinn og breiður.

gráttu barn
af gleði
því ástin umvefst þig
og hjarta þitt er í hlýum höndum.
ástvina þinna
sem standa þér nær

gráttu barn
því tárin hreinsa
andlit þitt
sem er svo ungt
og óreynt
Lífið er langt
og því skaltu fagna.
—–