Á hlaupahjólinu bruna ég líkt og hamstur gegnum hringrás og daglegt amstur. Tengdur í hverfla sem framleiða afl til að knúa einhverja vél. Finn svitann perla á enninu, gef frá mér óskiljanlegt babbl og höndin gefur mér mjel svo mér takist að líða vel. Reyni með hugsunum að komast út fyrir prísundina en líkt og með villtu vísundana yrði ég fljótt brotinn niður, skotinn sundur og rotinn síðar meir. Maðurinn, ég, þú, við, hann deyr, fastur innan rimla sem hann skapaði sjálfur. Ég er kálfur… kjöt á beini. Ég er hálfur… biti á teini. Ég er álfur… fastur í steini. Og hugurinn agnúast heimskur yfir einhverju meini… meðan sálin brýtur hann niður í leyni.

Áfengið var mín leið héðan út
og ofskynjanir flótti frá lífsins kala…

Tilfinningar hrynja yfir mig núna
og minningarnar sem áður lágu í dvala…

Búrið skyggir að mestu á lífið utan þess. Úrið á veggnum er þó greinilegt og telur niður til þess tíma er ég þarf að segja bless. Ég sný hjólinu hraður, hef ekki hugmynd um hvort ég sé graður, þaðan af síður glaður og með tíð og tíma efast ég um að ég sé í rauninni maður. Fastur á leiðinlegum köflum á trosnuðum síðum illa saminnar bókar. Fæðan kemur frá æðri öflum. Hver skóf skítinn úr líni minnar brókar? Af hverju er skalli þar sem áður voru flókar? Af hverju hrukkur á hörundi mínu? Af hverju eru línurnar óskýrar á andliti þínu? Af hverju heyri ég minna? Ef hjarta leynist milli geirvartna þinna skaltu hleypa mér héðan út! ÚT! ÚT! ÚT! ÚT! Búinn að snúa þessari vél í FUCKING óratíma fyrir maðkétið mjel á kostnað geðheilsu minnar. Mér hefur aldrei liðið vel þó bros hafi læðst um mínar kinnar… því brosinu hefur aldrei tekist að skríða skrefið innar…

Áfengið var mín leið héðan út
og ofskynjanir flótti frá lífsins kala…

Stjórnleysið hrynur yfir mig núna
því ég er bara punktur á þínum skala…

Hagnaður?
Fagnaður?
Tap?
Hrap?

Þínu ríki Drottinn er svo illa stjórnað.
Búrið mitt er minna
en allra hinna
og ég gæti svo litlu fórnað…

Segi því BLESS við helvítis búrið og HÆ við lífið sem leynist utan þess. Vélin má fara til Andskotans fyrir mér því ég veit ekki hvaða hagnaði hún hefur skilað þér, Drottinn. Veit ekki hvað arkitektinn að þessu lífi heitir en ég veit að hann er allra versti hrottinn. Pyntingunum sífellt með bros á vör beitir og smám saman lífsviljann úr mér reitir.

Og fætur hans eru vissulega feitir, þeir sem sparka mér aftur inn, lengst inn í litla fucking hlaupahjólsheiminn minn.

Og hér mun ég þurfa að dúsa, á hjóli, í skjóli fyrir lystisemdum frelsis, fram á hinsta daginn minn.



-pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.