Tómahljóð í heila. Raddir sín á milli deila og upp vaknar veila í sálu og geði. Með trúleysinu lagði ég eilífðina að veði. Hugsanlega, fölur, á hlýju dánarbeði, skipti ég um skoðun mína. Hver verður jú að hugsa um sína. Með andlit mót ljánum, hvert er þá tapið? Enda á hnjánum, trúi, kem í veg fyrir hrapið, fallið, niður í eldheita vítið. Held þá um krosslaga silfurgrýtið sem keypti ég mínútum áður. Skyndilega orðinn Drottni “mínum” háður sem eitt sinn hlaut háð eitt úr huganum sjúkum. Verð þá reyndar að halda mér mjúkum, auðmjúkum, fyrir gagnrýnu augliti hans. Stíga léttan dans á sviði lyga því ég verð að komast upp þennan háreista stiga. Stigann sem nær upp í harðlæstar dyr. Verð að sjarma Lykla-Pésa. Sama hvað hann spyr;

Hver er þín saga lambið bjarta? Er nokkra illsku að finna í þínu hjarta? Þáðir þú mútur frá englinum svarta og ef svo er segðu mér hví, vér alsjáandi himnaverur, skulum veita inngöngu, þér?



Hjartað stynur og gómurinn linur hrynur niður á skýjabreiðuna stóru. Öll þessi orð, sem lygi mín skóp, fóru. Í stað þeirra játningar flæða. Andlitinu byrjar að blæða. Alltof margar syndir. Þær skera sínar þunnu myndir í andlit mitt á leið sinni niður. Sál mín griða biður. Lófinn við varirnar styður og reynir að hindra að meira þaðan fossi. Fætur mínir krjúpa við útskorin borðin, frammi fyrir svörtum krossi og þaðan berast svo hræðilegu orðin;

Hjarta þitt úr brennisteinum, brenndi sér leið framhjá merg og beinum og það sást í þínum illu gjörðum. Þú brenndir þínar eigin brýr, sparkaðir niður lífsins vörðum og þóttist loks endurfæðast nýr fyrir allra augum. Þykist þú hljóta vist á mínum görðum? Heldur skaltu hljóta vist í eldsins laugum, dauður og deyjandi, í sífellu, með eilífan sársauka, í þínum sjúku taugum! Maðkur! Þú hlaust þitt líf sem entist tæpa öld. Nú skaltu brenna, öskrandi og grátandi, langt fram á eilífðarinnar kvöld!



Að eilífu
í milljónir ára
í milljarða ára
í trilljarða ára
skal ég nú brenna mig
í sífellu
á sýru minna eigin tára…








-pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.