*** Samdi þetta ljóð fyrir nokkrum mánuðum síðan. Hafði lent í vandræðum með áfengisneyslu mína nokkru áður en ljóðið var samið en var þarna loksins farinn að ná að fóta mig í lífinu aftur. Þetta er helvíti langt ljóð, efast stórlega um að einhverjir nenni að lesa þetta, en engu að síður myndi ég segja að þetta væri eitt af mínum betri verkum, þó ég segi sjálfur frá. Comment yrðu því vel þegin ;) ***



I. Hluti: Í eldinum

Í huga mér ískur og læti. Drottinn var nískur á kæti. Finn hvernig lífið á hugann þyngra leggst. Finn hvernig sveðjan í sálu þyngra heggst. Sama hvað mér tekst og sama hversu iðinn ég annars er… sinnið helst sem dekkst og myrkrið hlýtur skjól í hjarta mér.

Í speglinum sýni ég andúð og grettur.
Sakna þess að finnast ég góður og réttur.

Flý nú líf mitt
og glata mér öllum í áfengisstaupið.
Þrái það mest
að finna varirnar faðma byssuhlaupið.
Óska þess oft
að vera á annan stað en þennan settur.
Mig langar upp
á þessar rósrauðu Himnaríkis sléttur.

Ljótur. Feitur. Eineltismatur.
Leiður. Reiður. Drottinshatur
sem aukist hefur á síðari árum…

Ástin. Missir. Sífelldar sorgir.
Leiður. Reiður. Skýjaborgir
sem leka niður og verða að tárum…

Hiti. Kuldi. Hjartað mun hrapa.
Leiður. Reiður. Kertum tapa
sem áður lýstu veg minn framhjá sárum…



Núna er ég háður
helvítis flöskunni
og stranda því hérna
í brennheitri öskunni…



II. Hluti: Í öskunni

Mér er orðið sama þó ég brotni. Mér er orðið sama þó ég rotni. Lýsi yfir andúð minni á Drottni því ég ligg hér á jörðu, lifandi/dauður, og sleiki nú leðjuna á tilverunnar botni. Hamarshögg í höfðinu því skammturinn var of stór. Vítispúkar hlæja og bjóða mér niður í kór. Veit ekki hvert mín góðmennska fór sem enda átti hjá Lykla-Pétri. Við taka pyntingar, eldur og snjór því hjá Satan mun ég engjast í endalausum vetri.

Trúlaus. Vitlaus. Stanslausir verkir.
Leiður. Reiður. Púkar sterkir
draga mig niður til að pynta mig meir…

Uppgjöf. Grátur. Nístandi ekki.
Látinn. Farinn. Ég finn hlekki
snúast um fætur mína lina sem leir…

Fíknin. Dauðinn. Verð að vakna.
Satan. Víti. Lífsins sakna
því hvert fer sá trúlausi fíkill sem deyr?



Núna er ég háður
helvítis flöskunni
en verð að leita leiða
úr brennheitri öskunni…



III. Hluti: Úr öskunni

Hús og menn bruna hjá en ég verð að rata á milli. Í hjarta mínu flóð af blóði og sjálfsvorkunnarkvilli. Tárin skera ör í kinnar. Tárin stíga skrefið innar. Sálin leitar hlýju þinnar en svelgist á óttanum bitur. Ég leggst niður og í höfðinu heyrist enn blóðsins þytur. Eftir á er auðvelt að vera vitur en núna finn ég dauðann grípa um mína fætur og draga mig grátandi inn í ókunnar nætur. Hefði ekki átt að… hefði ekki átt að… drekka þetta eitur… sjúga þetta eitur… taka þetta eitur… því nú óttast ég mest að í helvíti sé tilbúinn minn plásslitli reitur.

En ég þrjóskast við víti.
Finn hita á kinnum.
Heyri kallað úr fjarska.
Opna augun með flýti.
Og á himninum sé ég myndir af þeim.
Mig langar heim…
Mig langar heim…

Hvaðan kemur þessi ótrúlegi styrkur? Ljósið hlýtt í augum mínum hefur brotist gegnum myrkur og nú segir mér eitthvað að ég skuli standa. Ef ég næ að reisa mínar fætur hverfa allir djöflar, allir verkir, allar nætur. Finn varirnar bærast og lungun anda. Finn enn leifarnar af dauðans keim en ég hræki honum út, ríf mig upp úr moldinni og leita leiða heim. Leita leiða heim, til að faðma mína ættingja, mína vini og dvelja öruggur hjá þeim.

Og gegnum myrkrið klöngrast ég veill
í átt að ættingjum og vinum
því hjarta mitt skal dvelja hjá þeim…

Gegnum myrkrið skjögra ég veill
í átt frá púkum og verkjahrinum
því ég þrái heitast að komast heim…

Upp allt víti klifra ég veill
í átt frá eilífð
í átt að ykkur
til að verða aftur heill…



Áður var ég háður
helvítis flöskunni
en flýg nú sem fönix
úr kulnaðri öskunni…




-Danni-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.