(Dauði förufálkans)

Hann kom til mín að vori.
Sveipaður í kufl brostinna vona,
sem hlotið höfðu endurskírn í eldi augnabliksins.
Lokkaði og seiddi með ósögðum loforðum,
horfnum helgidómum æsku minnar.
Og ég minntist fornar myndar sjálfrar mín
og klæddist grófofnum kyrtli eyðimerkurvindanna
sem forðum léku um goðsögn horfinna heima.
Eloin! Ómaði rödd pílagrímsins
úr gleymdum fylgsnum veru minnar.
Og ég mundi aftur hvert leið mín lá.
Hlekkirnir brustu.
Og ég tók staf minn og hélt áfram förinni.


_________________________________________
Ég skrifaði þetta fyrir dálitlu síðan og veit ekkert hvað ég á að gera við þetta. Þetta er ekki ljóð, sýnist mér og ég held að þessi veslings texti viti ekkert hvað hann vill vera. En mér datt í hug frekar að setja þetta hér, en annarsstaðar. Eiginlega er þetta bara draumur sem mig dreymdi, og var svo skýr ennþá þegar ég vaknaði að mér fannst ég þurfa að skrifa hann niður. Þ.a. þið þarna háu herrar, ég verð ekkert svekkt ef þið a) sendið það til baka b) finnið því stað annarsstaðar….eða c) finnst þetta svo mikið krapp að þið kveikið í húsinu mínu ;)