Til sunds, lagðist ung stúlka
flúði illmennsku þessa heims, hennar heims
og synti áfram.

Á ströndinni sitja eftir
særðar minningar
og kalla á hafið
að skila stúlkunni sinni heim.

En stúlkan hélt áfram
og horfði í átt til bjarts sjóndeildarhrings
sem bauð upp á alsælu minnisleysis
og skjól gegn köldum heiminum.

Sjórinn umlykur hana eins og hlýtt teppi
deyfandi tilfinningarnar
og sársaukan frá minningunum
sem sitja enn á ströndinni.

Út við sjóndeildarhring
er skjól.
Og stúlkan hélt áfram
þar til hafið tók við henni
og lagði í vöggu sína
djúpt, djúpt.

Minningarnar horfnar
því ekkert heyrðist í þeim lengur
sársaukinn sofnaður
og lífsneistinn sveif upp með loftbólunum
í átt til himna
í átt að sjóndeildarhring.

Sofðu rótt unga stúlka
því vaggan mun bera þig ofar marafleti
ofar skýjum
inn í heim án sára þinna
vonandi.

Á ströndinni sitja minningarnar enn
og horfa til hafs
sólin horfir á móti
og brennir burt nóttina
sem umlukti heiminn með krumlum sínum.
Hversvegna kom hún ekki fyrr?

Á ströndinni sitja minningarnar
setjast að í hugum þeirra
sem koma að.

Hafsins tár bleyta þurrar skeljar
og renna burt í sandinn
hafsins tár reyna að sefa sorg þess sem horfir
vonaraugum til himins
og bíður.

Lát barninu okkar líða vel
því nú þarf það ekkert vont að lifa
og engar klyfjar að bera
því minningarnar
sitja eftir á ströndinni
og skolast brátt burt
með tárum hafsins.
—–