-Andlitslausar rósir-

…droparnir á malbikinu leka hraðar í átt að ykkur
…í átt að ræsunum illa lyktandi í stórborg auðæfanna
…neðar í þjóðfélagsins stiga þar sem kuldinn ríkir
…og þar sem þið eigið heima…

…starið upp á móti flúorljósinu á veggjum baranna
…yljið ykkur upp við loftræstigöt skemmtistaðanna
…litlar flíkurnar á þunnum líkömum ykkar feykjast
…undan útblæstri mengandi bifreiðanna…

…þið bíðið eftir rétta tækifærinu og rétta bílnum
…sem mun rífa ykkur upp frá hrollkaldri götunni
…mennirnir ljótfölir og sorgmæddir finna í ykkur hlýju
…sem þeir finna hvergi annars staðar…

…með andlitin litrík líkt og nýútsprungnar rósir
…starið þið með fagurbláum augum og tælið þá til ykkar
…líkamar grannir líkt og þyrnum prýddir stilkar
…slitna létt frá jörðu þar sem þeir áður uxu…

…allar eruð þið án föður og móður
…allar eigið þið harðan lífróður
…skrapið þið saman örlitlu fé
…fallið niður á ykkar mjóu hné
…veitið ókunnugum sælu og gleði
…liggið svo á götunnar beði
…fyllið æðar af eitri slæmu
…til að sljóvga sálina næmu…

…slitnar upp og hent á hauga
…glímið þið við gamla drauga
…einar
…fyrirlitnar
…en þið standið enn beinar…

…þið haldið í reisn þá er konunni er tamið
…og bakið er upprétt þó andlitið sé lamið
…karlar eru fæddir ykkur til að meiða
…og sjúkdómum milli ykkar þeir breiða…

…varir rauðar líkt og rósir
…dauðar liggja á götu drósir
…með trosnaða stöngla
…og blóðug blöð…

…vændiskonulíf er hin versta kvöð…


-Pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.