-Ást utan allra heima…-

Glugginn stendur opinn og mig dreymir
orna mér við fagra mynd af þér
Tilfinningin lifnar við og tár mitt streymir
tilbúinn að tapa aftur og fórna mér.

Eldurinn heitur tendrar löngun mína hlýja
horfi ég lengur inn um glugga sálar þinnar
Augu þín stara upp til fagurrauðra skýja
sem varpa litum sólarinnar.

Regnið streymir niður en enn stend ég hér
silkimjúkar varir þínar söngla með lagi
Líkt og draugur sem dansar og enginn sér
lifi ég að eilífu við söng að þessu tagi.

Hár þitt fýkur um og snerta mín sýn
sólgylltur roðinn á andliti þínu fangar mig
Kuldinn hérna úti í vætu smám saman dvín
sjóðandi heitur er ég stari bara á þig.

En hversu lengi sem ég bíð hérna heitur
horfi á sömu stúlkuna með angist í hjarta
Ég átta mig á því að mér var ætlaður reitur
á öðrum stað en hér, á himninum bjarta.

Vængir mínir hefja sig til flugs en ég veina
vil ég staldra lengur og stara tómum augum
Þó guð muni mér inngöngu í himna meina
mun ég dvelja hérna sæll með öðrum draugum.

Vængir mínir rifna hljótt er ég tek hart í þá
hrapa ég glaður til jarðar fyrir utan húsið þitt
Gleðitár mín renna er ég fæ þig fljótt að sjá
fegurð þín streymir nú inn í hjarta mitt.

Ég græt án tára, ég stari blindur sæluaugum
segi allt sem segja þarf án allra hljóða
Himnaríki mitt er hér með öðrum ástardraugum
ég er ástarflónið í boðskapi allra ljóða.

Svo ég sest niður og hverf inn í þitt líf
syng sæll með þér þó þú sjáir mig ei
Á dúnmjúku skýjaþykkni ég hátt svíf
og þú verður æ í huga mér, er ég dey.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.