Ég stari í blátt tómið
þar sem dreggjar dagsins drukkna í geislavirkum roðanum
sjóndeildarhringurinn nær horfinn
og skínandi augasteinn himinsins
hrapar fram af brennandi hengiflugi jarðarinnar
aðeins til að svífa undir fótum okkar
og birtast hinum megin.
Ég horfi á fjarlæga fjallstindana bráðna í tíbránni
eins og öfug grýlukerti í vetrarsól.
Ég sé dökkar eftirprentanir húsanna lengjast
smitast yfir kalda jörðina þar þær hverfa í trjánum.
Ég horfi inn í sjálfan mig
og sé að dagurinn þar er þegar liðinn
og nóttin endalausa tekin við
kuldinn bítandi, tómið algert.
Ég sé yfir því hangandi leifar hálfósýnilegrar birtu
sem eins og skínandi augasteinn heimsins
fellur fram af brennandi hengiflugi
aðeins til að hverfa að eilífu.
—–