Þetta ljóð samdi ég fyrir nokkru síðan. Það var persónulegt þá en það er það ekki lengur og þess vegna ákvað ég að skella því inn núna. Mér finnst þetta eitt að mínu bestu, þannig að ef þið nennið, þá væri mjög fínt að fá álit ykkar… (svona rétt til að kveikja áhuga… þá kemur endirinn dáldið á óvart í þessu langa ljóði ;))

-Sama-

Sameiginlegar syndir mannanna blóðga mig
svalandi þráin í sálum þverrandi stríða
dregur mig niður og deyðir alla nema þig
djöflarnir dreifa út söknuði, sorg og kvíða.

Mér er sama þótt þú kveljir mig og særir
söknuður getur aldrei orðið hugsun mín eina
þó þú drepir mig og þó þú sorg mína nærir
mun ég halda áfram að feta brautina beina.

Mér er sama þó að í augum allra ég sé ljótur
sé með tárin í augunum í örskamma stund
skríð ég í skuggann og klöngrast niður í gjótur
skylmast við minningar um hið fagra sprund.

Spegilmynd mín brosir því að ég er fagur fýr
fegurðin skapar hamingju en ég er sjónlaus
mér er sama hver hati mig og baki við mér snýr
meðan allir er á móti mér held ég ennþá haus.

Ég er stoltur af sjálfum mér því ég er ennþá til
sárin í sálunni eru orðin að fallegum, ljósum örum
brákaður ríf ég mig lausan, geri það sem ég vil
ég hugsa ekki um vandamálin, ég hugsa núna í svörum.

Svarið er komið og því er mér sama um allt þetta
sárin hafa gróið og hjartað ei lengur alsett götum
ég nenni ekki að ganga áfram, klöngrast upp kletta
kalt myrkrið dugar til að svala mínum hvötum.

Mér er sama þó ég deyi og leggist niður brotinn
Mér er sama þó ég særist og blæði út hér einn
Mér er sama þó ég horfi upp í kistunni rotinn
og geti mig hvergi hreyft, stjarfur og beinn
Mér er sama þó ég horfi á allar sálirnar glaðar
Mér er sama þó þú hverfir frá mér á ný
Mér er sama þó lífið hlaupi frá mér hraðar
og ég sökkvi lengra niður í þetta botnlausa dý
Mér er sama þó vinirnir kalli mig nöfnum slæmum
Mér er sama þó ég finni ekki lengur frið
Mér er sama þó ég finni sársauka í taugunum næmum
og þó Drottinn gefi mér engan grið
Mér er sama þó ég dragist niður í hið djúpa hel
Mér er sama þó ég ljúgi að sjálfum mér
Mér er sama þó mér líði aldrei vel
og glati allri ást í veröld minni hér.

Mér er sama þó þetta ljóð sé lygi
Mér er sama þó hjarta mitt sé kalt
Mér er sama þó ég neðar hnigi
og geti ekki lengur sætt mig við allt

Komdu aftur til mín fagra meyja
Komdu aftur því ég er þunglyndur
Komdu aftur því ég vil ei deyja
Komdu aftur því ég er blindur

Þú ert það eina sem ég get séð
komdu aftur og lagaðu mitt geð.


-Pardus-



Jæja… hvað finnst ykkur svo???
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.