Ég held áfram þrátt fyrir hóla og hæðir
horfi gegnum þokuna sem blindar mér sýn
regnið bylur á munni mínum sem blæðir
magur máninn situr og yfir mér hann gýn.

Í kuldanum leynist hlýja og hraðar ég geng
horfin er sálin, strokin úr líkama mínum
vélrænar hreyfingar og með magann í keng
marinn og tómur með rautt fyrir sýnum.

Stjörnurnar skína gegnum skýjaþykknið skærar
skolgrátt myrkrið virðist tala til mín í ró
“Komdu til mín, þar sem árnar eru tærar
tómleikinn hverfur hjá mér, í fagurra blóma mó.”

Ég hristi af mér drauminn um drottins ríki
dauðinn er fjarlægur hér þar sem lítið lifir
því held ég áfram yfir kletta, steina, björg og sýki
sprettandi kem ég fram að gjá en stekk yfir.

Ég hleyp hraðar til að forðast hugsanir þær er plaga mig
horfi ei til baka en stari áfram þess í stað
ég er sálarlaus, blóðugur, deyjandi til að ná í þig
og er ég næ því mun ég vita að ekkert er að.



Hlaup mitt er eilíft og ég veit ei hver ég mun lenda
og þess vegna veit ég að þetta ljóð
þessi eilífa leit
þessi eilífa ástarsorg



…hún mun aldrei enda.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.