Þetta er dáldið ljótt ljóð en eins og heimurinn er í dag, þá á hann skilið að fá smá vatnsgusu í andlitið. Endilega segið þið hvað ykkur finnst… hvort ljóðið hafði áhrif og svona :)
Enjoy.


-Hinn nýi Messías-

Mjólkurárnar renna niður frá börmum náttúrunnar móður
milli dalverpa koma þær við og mengast við skólpið
í byggðum djöflanna streymir guðadrykkurinn góður
gegnum líkama fólks þess er telur sig hólpið.

Grasið sölnar og visnar undir grönnum fótum mínum
gult, mengað og bragðlaust endar það í maga dýranna
sem deyja smám saman á öskuföllnum högum sínum
smávaxnar flugurnar hrynja niður á botni mýranna.

Ég geng milli hálftómra bæja og horfi á fólkið þjást
hatrið ríkir svo glatt að Djöfullinn situr í hel og hlær
því að í hatursfullum heimi er svo erfitt að finna ást
horfin er tilfinning sú, er hver maður í vöggugjöf fær.

Sjálfskipaðir harðstjórar ráða yfir hverri sál nú
sorgmæddur horfi ég á ofbeldið vaxa með hverjum degi
í angist sinni fer hver og einn maður að missa trú
eina hugsun fólksins nú, er þeirra eiginn sári tregi.

Ég held áfram göngu minni og heyri úr húsum veinin
horfi stíft á gluggana til að vita hverju þessu veldur
ég sé skugga manna lemja konur sínar, í sundur beinin
stari stíft, stjarfur og við götuna stend ég negldur.

Smákrakkar elta uppi lítinn dökkan pilt sem snöktir
syngjandi vísur um Sambó og niggara sem deyja
laminn sundur og saman og áfram hann höktir
stjarfur og orðlaus veit ég ei hvað ég á að segja.

Ástlausir skyndidrættir milli andlitslausra hjóna
er syndin að geta barn í þennan heim einna verst
gráturinn, óhljóðin hátt í eyrum mínum hljóma
hálfblint barnið deyr einnig þegar heimurinn ferst.

Hermenn elta uppi fátæka ófríska konu með hnífum
hefur hún stolið sér til matar og hleypur brott
ríkisstjórnin grimma, sem rústað hefur mörgum lífum
ræður dauða hennar og á andlitum hersins er glott.

Lítill gamall karl með skakkar, ljótar og brúnar tennur
litast um eftir smástelpunni sem hann hafði áður fangað
hún hleypur hágrátandi en á sleipri götunni hún rennur
heldur hann áfram og innan stundar kemur hann þangað.

Ég öskra inni í mér til að yfirgnæfa hávaðann hér
hef ég aldrei komið í slíkt ógnarljótt helvíti fyrr
heimur sá er áður fagnaði og tók glaður á móti mér
mylst niður að lokum, og guð minn stendur kyrr.



Rauður himinninn fyllist af sótsvörtum skýjum
sjúk dýrin hlaupa upp á fjöllin til að deyja þar
visnar, soltnar sálir gráta undan harðstjóra nýjum
strjúkandi yfir sárin, líkaminn er eitt stórt mar.

Ég er hinn nýi Messías, ég er kominn aftur til Jarðar
ég hef grandskoðað heiminn og honum verður ei bjargað
ég get ekki fórnað mér aftur fyrir sálirnar sárar og marðar
fjandinn hirði mennina, fordæmdir hafa þeir sjálfum sér fargað.

… krossinn sem ég ennþá ber
… dauðinn sem þið olluð mér
… stolt mitt er lítið og sært
… og fólk mitt hefur ekkert lært.



-Pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.