Steinninn starir á mig gráum djúpum augum
Stjarfur stend ég og læt mig leka í grasið
Leggst niður og læt draumana flæða inni í mér
Loftið skríður inn um hverja vitund mína.

Hamingja
Friður


Skriðan skekst undan köldum fótum mínum
Skakkur skríð ég á sleipu stóru grjótinu
Niðurinn í fossinum færist nær og nær
Nú finn ég hvernig steinarnir lifna við og hreyfast.

Áhyggjur
Æsingur
Ótti

Syngjandi skellirnir í hörðum hnullungum
Sjúga um síðir úr mér allt mitt kalda hugrekki
Finn ég hvernig þunginn leggst á líkama minn
Liggjandi reyni ég að finna leið fyrir loft.

Liggjandi
Kafnandi
Deyjandi

Blóði drifinn í bergi köldu ligg ég særður
Berjandi hausverkur magnar loftleysi og ótta
Hver taug í líkama mínum skelfur af sársauka
Sökkvandi dýpra, líf mitt leggur á flótta.
En hvernig svo sem líðan mín versnaði
Hvernig svo sem lífið mitt hörfaði
Hélt ég ávalt í von þá er barðist inni í mér.

Slasaður
Særður
Dauður

Höndin var heit
Andardrátturinn skjálfandi
Ljósið kom fljúgandi
Gegnum grátandi grjótið.
Andlit þitt lýtalaust
Hárið þitt gullslegið
Sólin bak við þig
Og rödd þín róandi.
Þú togar mig upp
Þú dregur mig að þér
Þú dróst mig úr dauða mínum
Þú bjargaðir mér.


-Pardus-



P.S…. Það er gott að sleppa úr skriðunni.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.