Mjólkin situr kyr á borðinu eftir heita nóttina
lyktar skringilega og bragðast ennþá verr
gosdrykkurinn í glasinu er flatur og bragðlaus
klístrið á sófaborðinu var einu sinni lifandi appelsína
sem var kreist og hellt út í Vodkapela
og nú standa sígarettur upp úr safanum
sem hellt var niður af sofandi manninum í sófanum.
En ég geng hamingjusamur inn á salernið
teygi úr mér og horfi sjúskaður á hálfsofandi spegilmyndina
sem áður var aðeins drengur góður
núna orðinn maður með öðrum mönnum.
Ég finn hvernig hönd teygir sig undir handarkrikann minn
hún er heit og þvöl og vefur sig um maga minn
hárið leggst á hálsinn og kitlar mig ljúft
ég hlæ og sný mér við til að faðma hana að mér.
Við göngum framhjá liggjandi fólkinu á stofugólfinu
foreldrar mínir fara bráðum að koma heim í svínastíuna
sem áður kallaðist notalegt heimili okkar.
Ég leggst upp í rúm og hugsa ekki meir um þetta
faðma að mér stelpuna sem breytti mér að eilífu
því það er sama hversu miklar skammir ég fæ
nótt þessi mun halda mér glöðum
hún mun hreysta mig við
þó að á móti blási.

Ég opna augun aftur
heyri lykil í skránni
hróp og skammir
sný mér að heitum líkama hennar
og sef áfram.

…stór mistök geta fært manni mikla hamingju.


-Pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.