Ég skrifaði þetta ljóð í frjálsu ritgerðarvali í skólanum sem ég er í og fékk 8,5 fyrir í vor. Þið megið svo sem nota þetta ef þið viljið, en þetta er eftir PARDUS…


-Dreggjar Morgunsins-

Dimmur morguninn hefst og döggin á grasinu sefur
deyr út myrkrið sem kvöldið áður þakti mína sál
í kulda morgunskímunnar stúlka um sig kápu vefur
kurrandi fugl á grasinu situr, engin hans vandamál

Himininn bleikur, skýin rauð út frá sólarinnar geislum
syngjandi spörfuglar trítla um, þennan sunnudagsmorgun
þreyttar sálir rölta skjögrandi um, komandi frá næturveislum
strætin eru tóm, rónar sitja kyrrir og gleyma sínum sorgum.

En ég fylgist með fallegri stúlkunni, inn í skuggasund hún fer
fellur dimman á dökka kápuna og myrkrið sig við hana kúrir,
ljóst hár hennar feykist um og saklaus lítil stúlkan er
lítur hvergi við og sér ei hvar dökki maðurinn lúrir.

Í glugga mínum fylgist ég með honum, hann á stúlkuna starir
strýkur yfir skeggjaðan vangann og byrjar hann brátt að ganga
hún snýr sér skelkuð við, eltingarleikurinn ei lengi varir
liggur hún brátt á götu, enginn nærri og honum tekst hana að fanga.

Stari ég tómum svefndrukknum augum á atburðinn eiga sér stað
sit ég þunnur og virkar engin hugsun í syfjuðum huga mínum
þó syfjan yfir mig leggist, hugsunin óvirk, veit ég að margt er að
með stírur í augum, kodda í höndum, hverf ég frá þessum sýnum.

Upp í rúmið ég leggst og hugsa ei meir um atburð þennan nú
urmull af fólki gæti séð þetta gerast og því ætti ég henni að bjarga?
Núna loka ég augum, læt huga minn reika og ein er hugsun sú
að horfin er sýn mín, stúlkan bjargist, og hann nái henni ei að farga.

Um kvöldmatarleytið stend ég upp, stari ég á loftið í húsi mínu
stingandi hausverkurinn streymir gegnum huga minn sem grætur
ég bursta tennur, greiði hárið og hugsa ei meir um þessa pínu
horfi ég tómur á spegilinn, hugsa ei um atburði þessarar nætur.

Sófinn laðar mig til sín, sjónvarpið situr einmana upp við vegg
vínglös gærkvöldsins standa á borði og að mér hlæja
á fréttum Stöðvar 2 ég kveiki og lítinn mat á borðið ég legg
lifandi fréttunum tekst öllum verknum frá mér að bægja.

En skyndilega skríður nístandi sársauki gegnum mína sál
skýst upp sú hugsun í huga mér sem ég áður vildi gleyma
á brott hverfa allar aðrar fréttir, öll önnur heimsins mál
á svipstundu áttaði ég mig sárt, að mig var ekki að dreyma.

Í angist og sorg bíð ég eftir fréttinni sem ég vona að komi ekki
sveipi ég um mig teppinu og tár renna niður frá bláum augum
eftir stutta stund kynnir fréttamaðurinn málið sem ég þekki
stingurinn eykst, samviskan mig gleypir og sorgin mig tekur á taugum.

“17 ára stúlka var myrt í dag, hún var skilin eftir á votu stræti
stungin með hníf, nauðgað með afli og maðurinn er flúinn
biðjum við mann þann sem þetta hefur séð, að tala ef hann gæti
því foreldrar hennar leita enn, gráta og eru af sorgum sárt lúin.”

Ég slekk á sjónvarpinu og stend upp frá sófanum í flýti
sár út í mitt eigið dómgreindarleysi ég geng niður á bar
því þó samviskubitið skilji eftir sig sár og ennþá mig bíti
sorgir mínar hverfa brátt í fjölda fólksins og ég jafna mig þar.

Daginn eftir hef ég jafnað mig að fullu, tár mín eru farin
finn ég hvernig sál mín glöð hamingjunnar nýtur
hef ég gleymt hvernig stúlkan enn í kistu liggur marin
hverfur samviskan samt ekki og í sálu minni sefur og hrýtur.

En eftir nokkra mánuði geng ég sjálfur um dökk stræti
gleðin hefur ei horfið síðan atburðurinn ljóti stúlkuna henti
grunlaus drekk ég vín, fagna dátt og er með látalæti
dreggjar morgunsins setjast og á götunni ég að lokum lenti.

Á leið heim frá rugli síðasta kvölds ég glaður rölti
rauðbleikur morguninn fær fuglana til að raula
á bak við mig heyri ég hvar bíll einn fer með skrölti
bilaður mjög, gamall og flautan byrjar að baula.

Ég sný mér við og sé að bíllinn er á miklum hraða
stekk ég af stað en ég næ ei að komast á brott
á rúðu bílsins ég lendi og glerbrotin valda mér skaða
í götuna brotinn ég kastast og sé ég bílstjórans glott.

Andlit mannsins festist í augum mínum og fast ennþá situr
finn ég hvernig minningin um stúlkuna til mín hratt rýkur
í votu strætinu ligg ég endilangur og græt sárt bitur
strýk ég yfir blóðugt höfuð og lífi mínu brátt lýkur.

Hin hinsta stund er lengi að líða og hjálpin kemur ei
ligg ég enn og sé ég draug einn nálgast mig smár
stendur hún yfir mér alla þá stund sem ég dey
stúlkan á mig starir og niður kinnar hennar lekur tár.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.