-Lokuð leið-

Ég fæddist hér fyrir mörgum árum síðan
féll í faðm föður og úr augum hans skein blíðan
djúpt í augu mín, þau augu er ég fékk frá honum
í lífsins á hef ég sokkið, og drekkt hans vonum.

Sorgarfljótið er djúpt og ég reyni að synda að landi
svalandi kuldinn hylur mig er ég stend á botnsins sandi
en á árbakkanum standið þið og kallið á mig blítt
bjagandi grátur ykkar heyrist og um hjartað er mér hlýtt.

En hér er ég hreinn, mínar syndir skolast af mér
silungarnir strjúkast við mig og ég dvel hér
ættmenn, vinir og mamma og pabbi, ég er farinn
áin gleypti ykkar vin, sem orðinn var blár og marinn.

Sorgarfljótið skolar mér burtu, ég drukkna brátt
byrjar gleði mín er ég finn vatnið seitla inn blátt
blátt sem mín sál, sorgmædd sem mín auma sál
syng ég undurfagurt, undurblítt, um öll mín vandamál.

Á silkiströnd lendi ég á hlýjum og björtum sumardegi
sem nýfallin aska í á, siglir fram hjá mér allur minn tregi
ég finn hvernig sál mín slokknar en nú er ég á lífi að nýju
með tárin í augum dey ég, en finn samt undarsamlega hlýju.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.