Geng í gegnum gráa eyðimörkina
grátandi, skiljandi litla dropa eftir
á þurrum sandinum.
Sest á hné mín, horfi niður og hugsa
hugsa um þá einu ást sem ég fór frá
þá einu ást sem ég vildi.
Horfi stíft á lítinn, þurran, kaldan sandstein
tek upp lítið, hart og oddhvasst grjót
hugsa um illsku mína
sé eftir öllu þessu
hegg mitt hjarta í steininn.
Ég veit, ég sé að hjarta mitt er hart og kalt
ég vildi, ég vona að hjarta mitt væri mýkra og betra
en hjartað fyrir augum mínum
hjartað sem ég sker út
er hjartað sem ég úr mér missti
hart sem steinn
kalt sem grjót.
Sýrutárin úr augum mínum renna enn niður
er ég tek upp bjarg og geng stutt aftur
fleygi því á litla steininn, litla hjartað
og sé strax það sem ég vissi áður
að hjarta mitt er steinn
að hjarta mitt er hart
en hjörtu úr steini brotna líka.


Pardus.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.