Komið þið sæl!

Eins og sést á titli greinarinnar þá er þetta grein en ekki ljóð, bara svona svo það haldi nú enginn að þetta sé eitthvað mjög frjálslegt nútímaljóð.

Þegar ég var svona 8 ára fékk ég þessa löngun sem margir muna eftir frá bernskuárunum, löngunina í að semja ljóð. Ég lét pabba kaupa fyrir mig litla kompu og í hana skrifaði ég ljóðin sem ég samdi. Það var nú lítið vit í þessum ljóðum eins og flestum ljóðum barna. Eina áskorunin við ljóðasmíðina var að finna rím, og var þá oftast gripið fyrsta rímorðið sem kom upp í hugann. Svo þegar manni fannst ljóðið vera tilbúið fór maður til pabba og sýndi honum meistaraverkið. Hann hrósaði manni auðvitað fyrir leiknina en að sjálfsögðu gagnrýndi hann líka, og ég þoldi svo illa gagnrýni að ég var alltaf dálítið hræddur að sýna pabba ljóðin mín. Ég skildi ekkert í því af hverju honum fannst ljóðin ekki fullkomin!

Umhverfið skapar manninn að mestu leyti, og af hverju ég fékk áhuga á ljóðlist veit ég ekki, en það sem ég held að hafi vakið áhuga minn var pabbi minn. Pabbi minn er nefnilega ágætt skáld, hann semur ljóð við hvert einasta tækifæri og ég hef örugglega bara fyrst um sinn verið að herma eftir pabba.

Ég hef sent nokkur ljóð inn á huga.is en ekkert nýlega, en ég man að alltaf þegar ljóðin mín voru birt þá skammaðist ég mín fyrir þau,svona nokkurn vegin sama tilfinning og ég fékk þegar ég sýndi pabba ljóðin. Ég er nýlega búin að skoða ljóðin sem ég sendi inn á huga.is þegar ég var svona 13-14 ára og þau stinga mig öll í augun. Oft á tíðum fannst mér eins og ég hafi verið að reyna að lýsa einhverju sem ég skildi ekki, og nú þegar ég sé að ég hafði ekki skilning á hlutunum finnst mér ljóðin asnaleg.

Kannski var það fáfræði mín á hlutunum sem fékk mig til þess að yrkja um þá. Kannski hélt ég að ég gæti lýst hlutunum í bundnu máli þrátt fyrir að ég gæti það ekki í talmáli. Kannski var ég að yrkja um hvað skilningur minn var lítill á vissum fyrirbærum. Það fer líka óstjórnlega í taugarnar á mér þegar ég er að reyna að lýsa einhverjum tilfinningum sem ég taldi mig þekkja en þekkti ekki og nú þegar ég hef kynnst þessum tilfinningum sé ég hvað ég var að bulla mikið. Alla vega finnst mér lítill skilningur minn á viðfangsefninu skína í gegnum mörg ljóða minna.

Nú þegar ég tel mig vera tilbúin að yrkja ljóð um
ýmsa hluti sem ég hef upplifað án þess að sjá eftir þeim, finn ég mig aldrei í stuði til þess að yrkja. Rétt í þessu settist ég niður við tölvuna og ætlaði að yrkja ljóð en þegar það tókst ekki ákvað ég bara að skrifa grein um þetta allt saman. Mér finnst líka hálf kómískt að skrifa grein inn á þetta áhugamál sem sendir nær einungis frá sér ljóð.

Kannist þið við eitthvað af því sem ég hef verið að tala um hér?
Hvenær byrjuðu þið að semja ljóð?
Eru þið stundum óánægð með ljóðin ykkar eftir á?
Ákveðið þið að semja ljóð eða dettur ykkur bara allt í einu eitthvað sniðugt í hug?

Það væri gaman að fá smá umræðu um ljóðagerð hér og hvernig ljóðskáld huga.is líta á sjálfa sig. Ég hvet fólk líka til þess að skrifa greinar inn á þetta áhugamál eða skrifa smá pælingu með ljóðunum sínum til að skapa meiri umræðu.

Ég vona að ég sjái ekki eftir þessari grein loksins þegar hún verður birt! ;)

kv.peacock