Það er alvita mál að það er auðveldara að leggja bundið mál á minnið en lausan texta, þess vegna eru vísur rímaðar og bundnar ljóðstöfum. Fyrr á öldum var þetta notað einmitt til þess að muna sögur og þess vegna voru hlutir settir í vísur, til þess að fólk mundi þær og þær myndu ekki falla í gleymsku. Rím hjálpar manni að muna hvaða orð koma á þeim stað sem næsta rímorð er því þau hljóma eins og stuðlar og höfuðstafir tengja tvær braglínur saman og stuðlarnir leggjast á eitt og stuðla að því að þú munir fyrsta orðið í næstu línu því það hefst á höfuðstaf sem er sá sami og stuðlarnir.

Þegar vísur komust á prent þá datt út þetta gamla mikilvægi ljóðstafa því nú gat fólk einfaldlega bara lesið ljóðin hvenær sem það vildi og þurfti ekki að leggja það á minnið. Sambærilegt við að á öldum áður gat fólk lagt heilu rímnaflokkana á minnið sem er ekkert smáræði þar sem þeir voru oft gríðarlega langir eins og til dæmis Pontus rímur eftir Magnús Jónsson prúða sem voru alls þrjátíu rímur og hver ríma inniheldur fjöldan allan af ferskeytlum, fyrsta ríman í flokknum hefur að geyma 83 og sú 23. 81. En í dag geta eflaust fáir lagt þetta á minnið því við einfaldlega þurfum þess ekki, við höfum þetta prentað á blað og þess vegna er vægi ríms og ljóðstafa ekki það sama. Núna snúast þessi fyrirbæri kannski frekar um hljóm í upplestri, hrynjanda og bara hreinlega fagurfræðina.

Það er miklu skemmtilegra að lesa ferskeytlu með góðum takti og bergmál stuðlanna í höfuðstafi og hversslags rími sem hún býður uppá. Því vil ég eindregið hvetja fólk, svipað og Guðbrandur Þorláksson gerði á 16. öld, til þess að vanda sinn kveðskap. Virðið fornar bragreglur sem hafa varðveist í íslenskum kveðskap svo lengi. Íslenskur kveðskapur er einstakur og hann ber að varðveita.

Ljóðstafir skiptast í stuðla og höfuðstafi stuðlarnir eru tveir og koma fram í ójöfnu braglínunum í ferskeytlum sem eru 1. og 3. lína. Höfuðstafurinn er ávallt fyrsti stafur í jöfnu línunum, 2. og 4.. Stuðlarnir mega ekki standa hvar sem er í braglínu því annar þeirra verður að vera hjá áhersluþunga atkvæði þriðju kveðu sem er hákveða:

( ‘|’ = skil milli kveða)

Úr Örvar-Odds rímu eftir Bólu-Hjálmar:

Kaldur | byr í | köðlum | þaut
kólga | brjóstin | gnúði

Rangt væri ef vísan liti svona út:

Köðlum | kaldur | byr í | þaut
kólga | brjóstin | gnúði

Um hinn stuðulinn gildir að á milli hans og þanns sem er í þriðju kveðu mega ekki vera fleiri en ein kveða. Reglan um að annar verður að sitja í þriðju kveðu er óháð lengd línanna þannig jafnvel þó línan hafi 5-6 kveður þá er annar stuðullinn alltaf í þriðju kveðu:

Úr Ég bið að heilsa! eftir Jónas Hallgrímsson:

kyssi þið, | bárur! | bát á | fiski|miði,
blási þið, | vindar! | hlýtt á | kynnum | fríðum

Um höfuðstaf gildir að hann er ávallt á fyrsta áhersluþunga atkvæði í jöfnum línum:

Rétt:
Kaldur | byr í | köðlum | þaut
kólga | brjóstin | gnúði

Rangt:
Kaldur | byr í | köðlum | þaut
brjóstin | kólga | gnúði

Ef forliður kemur til sögunnar(Forliður er áherslulaust atkvæði sem er skeytt fremst í línu.) þá heldur höfuðstafur enn stöðu sinni í fyrstu kveðu línunnar:

Kaldur | byr í | köðlum | þaut
en | kólga | brjóstin | gnúði

Þegar ljóðstafir eru sérhljóðar þá skiptir engu máli hvaða sérhljóði er notaður a og e mega stulað saman við til dæmis í:

Úr fyrstu Pontus rímu:

Ótrú | sannast | útlenzks | hér,
öngan | skal því | leyna;

Ljóðstafir eru alltaf sami stafurinn ef þeir eru samhljóðar:

Kaldur | byr í | köðlum | þaut
kólga | brjóstin | gnúði

En þegar s er notaður í ljóðstafi þá þarf þetta að vera nákvæmara, það skiptir nefnilega máli hvaða stafur kemur á eftir s. Þeir stafir eru sk, sl, sm, sn, sp og st:

Úr fyrstu Pontus rímu:

Stigar | skulu við | stræti | hvört
sterkir | þá til | greiða

Ekki gengur ljóðfræðilega(og málfræðilega) upp að skrifa:

Smigar | skulu við | spræti | hvört
slerkir | þá til | greiða

Þarna á sér einnig stað ofstuðlun ef skáld hefði stuðlað þetta svona þar sem sk í ‘skulu’ flækist inn í. Þegar sérhljóði kemur á eftir s þá gildir það sama og þegar þeir eru notaðir sem ljóðstafir þ.e.a.s. skiptir ekki máli hvaða sérhljóðar stuðla saman, en einnig gildir að sv og sj stuðla við s með sérhljóða á eftir sér:

Úr fyrstu Pontus rímu:

setji | þvílíkt | sjónar|gler
r fyrir | augun | bæði

Vonandi næ ég að sannfæra einhverja þeirra sem stuðla ekki ferskeytlur og skylda hætti um að vanda ljóðagerðina og reyna að koma stuðlunum inn í ljóðin sín til þess að hjálpa að viðhalda þessu formi sem hefur verið nánast fullmótað síðan á 15. öld. Þetta er menningararfur okkar Íslendinga, skáldskapurinn og hann má ekki vanvirða með því að henda í burtu þeim reglum sem hafa ávallt fylgt honum.

Njótið nú þess sem þið numuð!

Magnús Ben

Maí 2005