Ég man þegar að það var hægt að fara út í sjoppu og kaupa fullan poka af nammi fyrir ekki meira en 200 krónur, þá nálgaðist einnig bíómiðaverð 500 frekar en 1000 kallin og allt í sjónvarpinu var áhugavert. Í dag borða ég of mikið af nammi, hef ekki efni á því þeim lúxusi að fara í bíói og ég myndi frekar naga af mér fæturna en að glápa á fávitakassan.
Eitt sem að ég hef rekið mig á varðandi sjálfan mig er þörfin fyrir að vera öðruvísi , jafnvel við fólk sem er að reyna að vera að öðruvísi - öðruvísi fólk hópar sér saman sjáið til. Sem barn hefði ég eflaust reynt að grípa það sem að sá sem að ég hékk með hafði áhuga á og reyndi að finna áhuga á því, því miður virðist í eftirsjá að allir þeir vinir sem að átti þá vera útivistartýpurnar. Ég hafði þau fyrir löngu kynnst þeirri unaðsemd að hanga heima og stara út í loftið frekar en hlaupa um úti í kringum börn sem létu eins og kötturinn sem hleypt var úr sekknum.
Í gegnum það að sýna fólki áhuga á því sem að ég hafði engan áhuga á í æsku uppgötvaði ég nautnir og umbunir þess að ljúga, ljúga mig í bólukaf. Lygarnar voru sem sápukúlurnar sem að maður taldi myndu aldrei springa,
en ég ætla ekki að fara út í afleiðingar þess að ljúga núna heldur ánægjuna sem að vel úthugsuð lygi færir manni, rétt eftir að hún flýgur út úr munnvikinu og í eyra hins grunlausa.
Hvítar lygar, lygar skáldaðar upp á staðnum, lygar sem byrja sem byrja sem skrökv en stækkuðu og stækkuðu eins og snjóboltinn sem valt niður hæðina,- ég elskaði þær allar! Blekkingar voru orðnar ástríða mín,og hvert ósannsögla orð sem blíð ástkona.
Í dag skrifa ég smásögur og ljóð, sem eru haugalygi, það er að segja ljóðin og smásögurnar, því hvað kallast það annað að búa til sannleika úr því sem er ekki satt heldur skáldskapur en að ljúga? Ég er orðatöframaður , saklaus orðin liggja í kassanum og bíða eftir því að verða söguð í tvennt, bíða eftir því að verða brengluð af skáldinu.

Í dag geta allir verið skáld, því fáranlegra ljóðið því meira lof fær það, en því meira sem að það er nálægt raunveruleikanum þá fer það framhjá fólki. Ég held að fólki finnist gaman að rýna í ljóð sem þýða ekkert og eru bara þvæla, reynandi að finna duldnar merkingar svo að það finnist það sjálft vera svaka klárt… Ef að það fór framhjá þér, þá var þetta ljóðið.