Ég finn til, þess vegna er ég
er með grasið í skónum
reyni að gera allt rétt
en misheppnast stundum
vegna þess að ég er mannleg
ófullkomin, óslípuð

Hugsa ég og þess vegna er ég?
Kannski að einhverju leyti
Lífið gengur sinn gang
dag eftir dag
Ekkert breytist, eða hvað?
Stundum veit ég ekki neitt

Vonandi fer allt vel að lokum
eins og oft er sagt
Hvenær sem það verður
Því að ég hef áhyggjur af ýmsu
sem er löngu búið og gert
Fortíðin getur verið flókin

Það er ýmislegt sem virðist ekki rétt
passar ekki saman
en er samt sem áður staðreynd
Það er athyglisvert
að sumu getur maður alls ekki gleymt
sama hvað tíminn líður

Ég vil vera barn aftur
hlaupa frjáls út um allt
og aldrei eldast eins og Pétur Pan
Ég vil hlæja og gráta,
veltast um í nýslegnu grasi
og sofna svo

Ég er öðruvísi
vil ekki vera venjuleg
Hvað græðir maður á því
að vera eins og allir aðrir?
Pæli mikið í hlutunum
er stundum í mínum eigin heimi

Sumir vinir mínir
lítillækka mig oft
En hvað vita þeir?
Þeir eru bara hluti af hjörðinni
ógnarsmátt hlutfall sem fylgir hópnum
En ekki ég

Ég finn til, þess vegna er ég
Fagnið eða hafnið því
Ég sé fyrir mér hafið
og hugsanirnar streyma
Ég ætla að lifa
og bara…vera ég
Ég finn til, þess vegna er ég