-Vængir Frelsisins-

Ég öfunda allar þær lífverur sem ekki hafa sál
södd á fótum sínum þær skríða og safna sér matar
Þær þurfa ekki að hugsa um öll sín vandamál
því enginn annar hefur hugsun, enginn þær hatar.

Lirfan skríður lifandi um tréð og breytist í fallegt dýr
líkaminn verður fiðrildi og vængir frelsisins dafna
fullvaxta flýgur fallegt fiðrildið og heimurinn er skýr
á fótum fögrum lendir það og byrjar lostætinu að safna.

Laufblaðið mjúkt undan fótum þess lítillega hnígur
lekur plöntusafinn líkt og vín um lífverunnar limi
stendur vera guðs upp og á brott til annarra staða flýgur
stýrir lífslöngunin henni á brott, dásamleg flugfimi.

Sællega flýgur fiðrildið um bæi og borgir
fellur það niður úr himni og útsýnið skoðar
verður það dapurt er það sér mannanna sorgir
sárt það á öxl manna sest, og friðinn það boðar.

En blindir menn eru aldrei opnir fyrir dýranna sýnum
á öxl eins biturs manns fiðrildið blíðlega stendur
góðlegur karlinn er nú klæddur jakkafötum fínum
kallar upp yfir sig og hreyfir sínar hrjúfu hendur.

Fiðrildið hissa á rautt andlit reiðs mannsins starir
ringlað finnur það hvernig vængir frelsisins slitna
hamingjan í lífi fallega fiðrildisins ei lengur varir
því flest öll mannanna sök, er látin á dýrunum bitna.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.