Skuggar dagsins um göturnar skríða
syngjandi kem ég fljótt til þín
langa daga þú ei þarft að bíða
því alltaf ertu ástin mín.

Geng ég um göturnar og hugsa til þín
guð hefur sent mér engilinn sinn
til þín með rósir og rautt vín
ráfa ég að húsinu þínu og ætla inn.

En frá götunni heyrast há vein
heyri ég ekkert annað nú
smýgur sárt gegnum merg og bein
sé ég brátt að þar liggur þú.

Í blóði þínu liggur þú og grætur
þegjandi lamast ég og horfi til þín
með tár í augum gefur þú mér gætur
grátur þinn hækkar og loks hann dvín.

Ég hleyp af stað, en ég get mér ei bifað
á þig ég horfi en enginn andardráttur
nú lokar þú augum, þú hefur nú lifað
liggjandi þú deyrð og enginn máttur.

Loks ég að þér kem og leggst þér hjá
lokuð augu þín eru falleg sem fyrr
munnur sem öllu fögru sagði mér frá
situr á andlitinu fríða, þögull og kyr.

Með tárin í augum ég blíðlega gef þér blóm
á brjóst þér legg og koss ég þér gef
af röddum lækna ég heyri bara óm
og dapur ég dey, leggst við hlið þér og sef.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.