Ég birti hér þrjú ljóð sem ég samdi um daginn. Ég veit ekki hvort það sé eitthvað vit í þessu en gaman væri að fá smá krítík frá fólkinu hérna.



Strengjabrúða

Dökk skýin ásækja mig
dag hvern rignir á sólina
þar sem ég stend eru rætur af illgresi.
Þegar ég vakna er sannleikurinn ljós
og enginn okkar kemst undan.
Ég er strengjabrúða
búin til af rotnum höndum
hent í ruslið eftir dálitla notkun.
Blóðið rennur niður
en enginn sér það
því ég er ósýnileg.



Frelsun

Blik stjörnunnar nær ekki niður til mín
þar sem ég ligg í grasinu
og bíð eftir að sólin rísi
eftir kvalarfulla nótt
af öskrum og tárum.
Úr eldinum í öskuna
frá brjálæði í friðinn
þar sem þögnin ber mig í höfuðið
og ég bíð eftir ljúfum dauðdaga.
Frelsun
þar sem allt er tómt
og engin þörf fyrir neitt
aðeins tómleikinn strýkur mér um kinnina
og segir að allt verði í lagi



Fögnuður

Ég launaði þér allt
ég gaf þér allt
ég var skuggi listaverksins
sem hékk fyrir framan mig
við hlið mér allar nætur
enginn friður, engin miskunn.
Þetta var auðvitað geðveikin í mér
sem hvolfdi öllu
og listaverkið fór frá mér
en ljósið kom til mín.
Fögnuður
lof í lófa frá öllum hliðum völundarhússins
þar sem klukkan slær
og ég finn fyrir þreytu
ég finn að ég mun ekki vakna aftur.