Að bægslast við að halda öllu beinu
er bjánaskapur allt of algengur,
að tipla aðeins sæll í taui hreinu
til þess eins að þykja gjaldgengur.

En öllum finnst sú firra skipta máli
og flækjast við þvott í eigin gardínum,
leitast við að líkjast manni úr stáli
og líður síðan eins og sardínum.

Heyrt hef ég að lífið það sé þýfi
og því finnst mér mín skylda að segja frá:
Það þykir best að lifa sínu lífi
laumulega, öðruvísi, á ská.