Sól gaf mér grasilm og yl
svo ég hrundi úr fötunum
og reyndi að þóknast henni
með grískri líkambyggingu minni

En þú varst akfeit og kappklædd
svo ég lagði þig kærulaust frá mér
úr sjónlínu hennar

Þú bentir og hlóst að mér
Sagðir ég væri eins og hálsstutt álft
Þegar ég stillti mér upp
og þandi mig í þrefalda stærð

Sitjandi hokin flötum beinum
í blárri dúnúlpu, skotthúfa á höfðinu
og allar undirhökurnar
titruðu þegar þú hlóst

Ég fór handahlaup og heljarstökk
og gaf þér ekki gaum
fyrr en löngu seinna

Þá lakstu út á grasið
gegn um skálmarnar
og andlitið var samfallið
eins og á bráðnaðri dúkku