Ég ligg í myrkri
öruggur, þó ég sjái ekki veggina
rís við og rek mig í ljósstæðið

Ég kveiki á perunni
og ljósið mengar ljótleika
spýr honum yfir herbergið

Píri augun mót birtunni
og greini óskýrar útlínur
oflýstra og ófarðaðra hugsanna

Þegar augun venjast
sé ég þær sitja eftir kyrrar
og mæta augnaráði mínu óhikað

Varfærnislega virði ég þær fyrir mér;
nýfæddar en fullgerðar,
enda meðgangan löng

Allar með tölu
bera þær ásjónu þína
og glottandi tek ég að hata þig