"Hetjan" ég ákvað að skera upp herör
gagnvart hryðjuverkum
í síðustu viku…

ég sendi áttatíu og þrjár
fullbúnar orustuþotur
sextíuþúsund hermenn
og dómsdagsflugvél…

ég skipaði þeim að myrða
alla þá sem litu út fyrir
að vera illir og hugsanlega
bandbrjálað illindispakk…

þeir drápu allt sem fyrir fannst
þeir rifu niður heilu byggðirnar
skutu börn af tvöhundruð
og þrjátíumetra
færi…

(að sögn eins… en ég held að hann sé bara að monta sig)

hleyptu fjörutíu tonna skriðdrekum
yfir moldarkofana
vörpuðu fimmtán tonna sprengjum
yfir moldarkofana
skáru hendurnar af illindisseggjum
því þeir báru hnífa
sprengdu húsin upp í háaloft
því í þeim voru hnífar…

(allir þessi hnífar gætu reynst okkur skaðsamir)

þeir drápu allt sem fyrir fannst
þeir rifu niður heilu byggðirnar
skutu börn af þrjúhundruð
og fimmtíumetra
færi…

(hann er strax byrjaður að ýkja)

ég stoltur leit á árangurinn
ég stoltur sá á haugana
hauga þar sem áður
voru illskuhúsin…

ég stoltur leit í spegilinn
ég stoltur sá þar sjálfan mig
manninn sem að gerði
heiminn að öruggari stað…



-pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.