Stökkva fram úr myrkrinu,
sálþyrstar blóðsugur.
Galopna andfúlan kjaftinn
og sýna ryðgaðar og bitlausar
vígtennurnar.
Augun eru líflaus og tóm.
Reyna að bíta mig
en ég finn ekkert
nema vandræðalegan pirring.

Mig langar til að berjast,
mig langar að reka fleyg
í brjóst óvættanna
og murka úr þeim lífið.
En það eina sem ég get gert
er að slá pestina af mér
eins og flugur.

Ég steyti því hnefa
til skapara þeirra
í hamslausri bræði minni
og öskra að þeim
þar til mig sárverkjar
í háls og lungu
og hjarta.

,,Hættu að óska þess
að vera þunglynt skáld
þegar þú ert hvorugt!
Hættu að þrá
ástarsorg meira en
ástina sjálfa!
Hættu að vorkenna sjálfum þér
í athyglisveiðiferð
þegar þú hefur það fínt!
Drullastu til að viðurkenna
að þú hefur það fínt!"

Eftir þessa útrás
líður mér betur
því ég veit
að ég hef það fínt.