Áður en fjallstindar skáru og drápu,
áður en síðasti blóðdropinn draup
úr auganu alheimsins, glóandi gullmoli
röðullinn gyllti ei glóir meir.

Áður var fegurðin allsstaðar, gervöll
og plöntu- og dýralíf blómstraði um allt.
Allt var svo yndislegt, ilmur í loftinu
og heimsljósið gaf okkur lífskraft og ljós.

Áður hrundu fossar niður í ólgandi fljót,
sem síðar meir kvísluðust hvert sína leið.
Eldgömul eikartré fylgdust með dýrunum,
sum dýrin leituðu skjóls hjá þeim.

Allt þetta höfðum við, ef ekki meira
áður en síðasti blóðdropinn draup.
Þegar fjallstindar rifu sólina á hol,
blæddi henni yfir rjómann á himninum.

Blóðið allsráðandi á himninum var
-síðustu geislar hins gyllta auga-
þar til það varð að gulhvítum draugi,
blóðið storknaði og allt varð svart.