ég elskaði að hafa þig hjá mér
og horfa í augun þín stór
og rifja upp ryðgaða daga
og roðna við fyrsta bjór

ég dýrkaði að heyra þinn hjartslátt
sem hamraði við líkama minn
sem dundi sem dropar á þaki
sem drupu á vangann þinn

ég dáði þess að leika með lífið
og leika með allt sem var
og leika með ljósið á himnum
og leika með hvort annað

—–

ég byrja hvern dag með draumi
um dúnmjúku húðina þína
um hárið þitt (hallelúja!)
um heiðbjarta ásjónu þína

ég bið þess hvern dag að komir
þú kát og glöð aftur hér
þú áttir hvert orð mér af vörum
þú áttir hvern part af mér

ég sofna á hverju kvöldi
með kulnaða glóð í sál
með vonsvikið bros á vörum
með visnað í hjartanu bál

ég er maður í frjálsu falli
og fótfestu engri næ
og kuldinn mig umlykur allan
og kvelur mig sí og æ

ég er haldinn útá hafið
og hjarta mitt í sárum
og hugsunin hún er sjóveik
og hafið er fullt af bárum

—–

samt er ekki séns að mér sárni
því sársauki er fyrir konur
og ég er minn eigin herra
og engra annara sonu