Hún gengur inn ganginn
þungum skrefum
með blæðandi hjarta
í krepptum hnefum,
hún þegir sem gröfin
og dregur á langinn
andardrátt dauðans
í vestanvinds höfum.

Barn er að utan
með líkama ungan
snertur í húmi
hún stynur svo þungan,
blóðug og hrufluð
hnipruð í rúmi
alein í heimi
sálin svo trufluð.

Gömul sem jörðin
í dómsdagsins eldi
berfætt hún gengur
brothætt um svörðinn
langar að lifa
og leika sér lengur
lítur til himins
á stjarnanna strendur.