þú getur ekki ímyndað þér
tilfinningarnar
þær brjótast um í maganum
og höfðinu
og fingurgómunum
og litla táin iðar
hvert tár
er tileinkað vini mínum
sem hnýtti hinsta hnútinn
og stökk
(það var ekki ég sem sparkaði stólnum undan
það var ekki ég sem horfði aðgerðarlaus
á frjálst fallið
og blóðið á steingólfinu
það var ekki ég sem tók í gikkinn
ég gat ekkert gert)
—————————-
ef einhvern langar að minnast hans
sem fór
er sá hinn sami
beðinn um að hafa samband
í síma 555-5555
og guð mun svara
ef hann er við
—————————–
mér finnst það í rauninni alltí lagi
því ég elskaði þig ekki
ekki einsog þennan eina sanna
því að þó þú værir riddari
þá áttiru engan hvítan hest
——————————
þú ert vissulega farinn
svo farinn að ég sé ekkert lengur
nema móðu
blauta móðu
en einhversstaðar
í blautri móðunni
bíður þú
riddarinn minn
á grænu strigaskónum
—————————
þið dúfur
sem fljúgið til himna
segiði vini mínum að ég sakni hans ekki
því ég vil ekki særa hann
segiði honum að ég muni hann samt alltaf
því ég á mynd af honum
segiði honum að ég skuli semja til hans sinfóníu
spilaða af meisturunum
á hjartans strengi
og básúnur hugans
