úr fjötrum skríða þau fögur og ber
frostið skapar hlýju kringum hjörtu
dansa dátt við skýjanna hvíta her
deyja þegar sólin varpar björtu
…mér líður best í nóttinni svörtu…

vatnið varpar spegilmynd á kinnar
vonin dafnar aftur undir fjöllum
ljósið stígur skrefið nokkuð innar
sefar hjartað fyrir illum köllum
…mér líður best á fjallsins hvítu mjöllum…

norðurljósin lýsa hjartað upp að nýju
núna finn ég fyrir fornri hlýju
ylur skríður upp og niður sinnið
sýnin hressir upp á trega minnið…

norðurljósin liggja köld við strendur
lágt að baki stynur tapsár sorgin
ég fer með þeim – sé þar nýjar lendur
þagna loksins gömlu sáru orgin
…mér líður best er nálgast fjallaborgin…

norðurljósin sóttu hjartað upp að nýju
niðri fann það aldrei fyrir hlýju
ylur skríður upp og niður sinnið
sýnin hressti upp á uppeytt minnið…



norðurljósin skinu svo skært í nótt
norðurljósin björguðu mér í nótt
í fjallasalnum er mér loksins rótt…

hér ligg ég loksins aftur
í næturskini björtu
þegar veröldin okkar er dimm og köld
blæs náttúran lífi í hjörtu…

gleymdi mér í sjálfsvorkunn
gleymdi mér í fjandans sorg
núna kemur hún aftur
náttúran
og sefar mín sársaukaorg…



norðurljósin skína aftur skært yfir borg…


-Danni-



***Nokkrar línur eru teknar (þó lítillega breytt) úr ljóðunum “Norðurljósablik” og “Trúarinnar niðurbrot”. Var í 4 daga ferð á vegum björgunarsveitar frá fimmtudegi til sunnudags - sá þá ein mestu norðurljós sem ég hef nokkurn tíma séð (himininn varð bjartur af þeim!) Veit ekki hvað er eiginlega með þau, en þau virðast hafa einhver róandi áhrif á mig :) Ég þurfti dálítið á því að halda.***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.