það er laugardagur
svo einfalt er það nú

kókið búið
og tómar plastflöskurnar fjúka í eirðarleysi um stofugólfið
því glugginn er opinn

ég blæs tyggjókúlur
og tíni upp bréf utanaf subway-kafbátum undan sófanum

sest síðan við eldhúsborðið
og fæ mér perusíder
því kókið er búið


þannig hefði það verið
ef við værum ennþá börn

———————-

það er laugardagur
dagur hirðfíflanna

kókið búið
og örlitlar agnir fjúka um stofugólfið
einhver hefur misst í gólfið

ég vef mér jónu
og tíni notaðar nálar undan sófanum

sest síðan við eldhúsborðið (sem liggur á hliðinni)
og leik mér að föndurlími heimilisins
því helvítis kókið er búið

jamm
svona er það víst
að vera fullorðinn