Sýningin var sett nú fyrir stuttu
og stendur frá árla morgni
til eldra kvölds
sýnd eru skúlptúrverk
styttur og stöndugir kumbaldar
sem víst kallast abstrakt.

Fyrst má nefna verkið fjallasýn
flennistórt málverk
eftir Eld, Jörð og Haf
af smáskika suðurlands
séð úr dýpra suðri
og rammað inn af kvöldrjóðum Heimakletti og Klifi
Hekla og viðhald hennar Þríhyrningur pósa
halda um hvort annað stolt af því
að vera módel.

Öðru verki má ei sleppa
Loft í samvinnu við Haf
gerðu hér mínímalískt málverk
mengunarrauður litur meistaralega blandaður
við 1000 metra djúpbláan
og myndar stönduga sólarlagsheild.

Næst eru tvö hér hlaðin verk
eftir Eld og Jörð og unnið 73
eins og opnar bækur á gólfi
bókfellin Eldfell og Helgafell
tróna þau eins og vel lesnir tvíburatindar
yfir sýningarsvæðinu.

Að lokum má nefna lævi blandin gjörning
sem Loft vann með aðstoðarmanni sínum.
Sviðið tæmist,
frussar Kári úr fýsibelg sínum
fimmtán metra á sekúndu
saumar um gólfið þunglynd ský
og formælir okkur fólkinu
sem borguðum okkur inn
blotnum
og klöppum kinnroðaskrýdd.
—–