Mér líður eins og eilífð sé frá okkar fyrstu fundum,
finnst eins og heimurinn standi bar'í stað.
Þið lifið ykkar lífi, sjáið þið ei tárin?
renna niður andlit mitt, skilja eftir sárin,
skera sundur líf mitt, þú, þú gerðir það.

Óréttlæti finnst mér, að aðrir fái að lifa,
felst í mínu lífi nú ekkert nema sorg.
Er kvaddir þú mitt hjarta, hljópst frá þinni einu,
svertir mína sálu, hina áður hreinu,
sat ég hér og grét þig í ókunnugri borg.

Ég segi við mig sjálfa, hertu þig við, stelpa,
slepptu því að sorginni eyð'í þennan mann!
Svo lít ég yfir veginn, lít aftur til baka,
líður ekkert betur, án þín mun mér hraka,
yndislegri persónu ég aldrei áður fann.