Með penna í hönd og hugsanastíflu ég reyni að yrkja ljóð,
en ljóðið verður að ótal orðum sem kunna sér ekki hóf
og flæða á pappírinn, eitt af öðru og verða á endanum flóð.
Mín hugmyndaauðgi er stöðnuð í bili, nú tekur við svitakóf.

…Ljóð er orð
og orð eru ljóð.
Ljóðamorð
eru ekki bönnuð með lögum…

Hugsanaflæði
stíflar hugsanagang…

Nei, þetta gengur ekki…

…Hvað ef
ég færi að sofa á daginn
og lifa á nóttunni?
Myndi ég þá á endanum
breytast í uglu?

Spurning…

Mig langar að skrifa eitthvað merkilegra en áður hefur verið skrifað
og sýna það þessari þjóð sem ennþá dýrkar þennan Einar Ben.
En andinn kemur ekki yfir mig, þetta 5576. kvöld sem ég hef lifað.
Og ég vil kenna foreldrunum um, því það voru, jú, þau sem skömmtuðu mér gen.

…Vorsólin hnígur, þá sumar, þá vetur
og vonirnar fölna í gráld…

Nei, þetta orð er ekki til…

Andskotinn hafi það, ég get ekki betur
Ég er víst ekkert skáld.
Því dýpra sem þú kafar, því minni líkur eru á að þú komist upp aftur… og við munum öll drukkna á endanum… mbwúhahaha… haha… ha?