hvenær munu þessi ský öll hverfa
hvar er sólin falin bak við dimmu?
innar sorgin reynir sig að sverfa
og sigrar stórt í okkar miklu rimmu…

hvenær munu brosin aftur hvetjast
hvert skal halda nú er sálin dofnar?
hermenn mínir munu allir letjast
með brothljóðum heilabúið klofnar…

til hvers að berast á banaspjótum
í birtingu verð ég ennþá myrkur
sorgin hefur landað sigri skjótum
sýktur og búinn minn smái styrkur…



fyrir tveimur árum stakan samin
síðan hef ég lifað lífi betur
þó sorgin sé ekki ennþá tamin
er ég laus við minn versta vetur…

“með kveðju til allra hér á jörðu… bless”
ég samdi og sýndi öllum grátinn
tveimur árum síðar er ég hress
og þakka fyrir að vera ekki látinn…


-Danni-


***Í tilefni tveggja ára afmæli ljóðsins “Með kveðju til allra hér á jörðu… bless”. Það ljóð fékk mesta athygli af öllum mínum ljóðum.***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.