Ég samdi þetta ljóð áðan. Kynni að breyta um nafn á því. Þetta er svona það besta sem mér datt í hug í bili. ;) Það má svo sem deila um hvort þetta sé ljóð eður prósi og sýnist ef til vill sitt hverjum. Ég vona þó að það falli í kramíð og leggist almennt vel í fólk. :)


Hvað er með mönnum
sem anda vilja læsa inni
í hugarfylgsni myrksins
en þar skín engin stjarna
Mánanum blæðir
og darröður
fellur í svarthol
hvína köld vein
og bermála í iðjum sálar
Andvana stara þeir
holum tóftum
hlæja þeir eða gráta
nístandi þögn
sem er háværari hjartanu
en umrót þau
er veröld skópst
í árdaga

Þá loguðu eldar
og andi leitaði
Til æðri miða
Þá var hlýja
og ástin vakin
aldrei var hún nefnd
en þó lifði


Hvað er með mönnum
sem sína helju skapa
firrtir forlögum
eða eigin firru

Rauðan stíga dansinn
fýsnir brjótast út
sá laukur sem dafnaði af dögg
og litrófi sólar
hvar tærðist hann upp
varð hann rotnun að bráð?

Líttu til baka
horfðu fram
Er svarið ritað í sandinn
meitlað í stein
eða fangað í skuggan
önd þín
er hún allt eða ekkert?

þó þú finnir ei svarið
má ef til vill vera
að svarið finni þig