Til úskýringar, þá lásum við um æviár skáldsins Quintusar Horatiusar Flaccusar í latínu. Til að gera langa sögu stutta þá gekk hann ungur í her Brútusar, eftir að Síseró hafði verið myrtur. Quintus og sonur hans voru vinir, að mig minnir. Þá hafði Sesar verið myrtur og Brútus var að safna liði til að berjast, ásamt Pompeiusi við Antoníus og Octavianus. Eftir að hafa tapað lokaorustunni, flýja hermenn Brútusar af hólmi, þar á meðal Quintus. Hann snýr heim, einungis til að komast svo að því að Octavíanus, hafandi sigrað, hefur falið uppgjafahermönnum sínum lönd þeirra sem studdu hann ekki í baráttunni. Quintus örvæntir og hyggst leita foreldra sinna út um alla Ítalíu, en þau eru komin lengst á flakk og hann á ekki mikið meiri séns en ísmoli í helvíti. Loks er hann kominn að Róm en þorir ekki að ganga inn. Þá vitrast Appolon honum í draumi og sannfærir hann um að enginn geti storkað örlögunum, en ráðleggur honum að helga sig kveðskap og listum og lofar honum á móti verndarvæng.

Eins var endalaust í stílum tönnlast á því í stílum að ,,loks varð Quintus að sætta sig við að hann sæi foreldra sína aldrei aftur“

Jæja, nú er ég vízt búinn að teygja lopann alllengi, kannski er þetta fyndnast fyrir latínunema, en ég tók mig allavegana til og
samdi tvö fornyrðislög um þessar raunir hans.

Quintus kvalinn
kyns síns leitar
Ráf hans loks
til Rómar leiðir
Sólguð segir
þau sjá ei muni,
,,skunda heldur
á skáldanna braut”

,,Ber þér, Quinte
kviður semja
gyðjur lista
lof sem mig
eigi er ráð
við rögn að stríða
skunda heldur
á skálda braut"