Þau sækja á hug minn
svörtu augun
sem spegluðu ótta
og angist dauðans
svo þreytt var hún orðin
og þjökuð af hræðslu
þó reyndi hún að synda.

Því hún elskaði lífið
og óttaðist dauðann.

Ég var tólf ára telpa
sem trúði á hið góða
í sveit þetta sumar
hún synti til dauða
þó svötu augun
mig sárbændu um líf
–en ég mátti ekki hjálpa.

Þau sækja á hug minn svörtu augun
–svörtu litlu músaraugun.